Allabadderí fransí

Franskir dagar 20. til 24. júlí

Franskir dagar eru fjölskylduvæn sumarhátíð með frönsku ívafi á Fáskrúðsfirði. Hátíðin hefst miðvikudagskvöldið 20. júlí með skemmtilegri göngu yfir Staðarskarð. 

Hátíðardagskráin er bæði fjölbreytt og skemmtileg með tónleikum, útiskemmtun á sviði, sirkus, brekkusöng,svo að dæmi séu nefnd. Þá er þessi skemmtilega sumarhátíð örugglega sú eina á landinu sem heldur Íslandsmeistaramót í franska kúluspilinu Pétanque.

Á tónleika- og dansleikjadagskránni má nefna tónleika með Bergþóri Páls og Diddú, harmonikkudansleik og Rokkabillýbandið ásamt Eyþóri Inga sem sjá um stuðið á alvöru sveitaballi.

Franskir dagar eru síðan einnig lífsstílsdagar með holla og hressandi hreyfingu í boði í Tour de Fáskrúðsfjörður hjólreiðarkeppninni og Fáskrúðsfjarðarhlaupinu.

Fáskrúðsfjörður er stundum kallaður franski bærinn og ekki af ástæðu lausu. Franskir skútusjómenn voru snar þáttur í bæjarlífinu á 18. og 19. öld og reyndar alveg fram á 20. öldina. Það er ekki fyrr en upp úr 1920 sem frönsku skútunum fer fækkandi í firðinum.

Tengslin við gömlu sjávarbæina á norðurströnd Frakklands eru enn sterk. Til marks um það eru götuskilti á Fáskrúðsfirði, sem eru bæði á íslensku og frönsku. 

Safnið Frakkar á Íslandsmiðum og Franski spítalinn byggja einnig á þessari skemmtilegu frönsku arfleifð. Safnið er staðsett annars vegar í undirgöngum sem tengja saman Franska spítalann og Læknishúsið. Einnig er áhugaverð sýning á vegum safnsins í anddyri Læknishússins sem fjallar um merka sögu spítalans. Aðalhönnuður safnasýninga er leikmyndahönnuðurinn Árni Páll Jóhannsson og þykir safnið með þeim glæsilegri á landinu.