Sýningarsalur
Leirfuglar Rósu
Hálsmen
Grafík

Gallerí Snærós

Alþjóðleg myndlist, leirlist, listhandverk og skart

Að Gallerí Snærós standa listamennirnir Sólrún Friðriksdóttir og Ríkharður Valtingojer ásamt dóttur þeirra Rósu Valtingojer og tengdasyni Zdenek Paták. Galleríið hefur verið starfandi frá árinu 1985, í fyrstu á vegum þeirra hjóna en síðar bættust Rósa og Zdenek í hópinn.

Enda þótt galleríið láti ekki mikið yfir sér er listin sem það rúmar stór, ef svo má að orði komast. Hróður fjölskyldunnar hefur að sama skapi borist víða fyrir framúrskarandi myndlist og listhandverk og gildir þá einu hvort horft er til textilverka Sólveigar, mezzotint grafíkverka Ríkharðs, leirlistar Rósu eða myndlistar Zdeneks.

Skartgripasmíði fjölskyldunnar hefur einnig vakið verðskuldaða athygli, en þar leita Sólrún og Ríkharður fanga í einstaka smiðju náttúrunnar eða þæfða kindaull annars vegar og íslenskt grjót hins vegar. Fjölskyldunni er margt fleira til lista lagt og má hiklaust mæla með heimsókn í gallerí þessarar listfengu fjölskyldu.

Á meðal þekktustu verka Snærósar er leirfuglasafnið sem Rósa byrjaði að móta aðeins 13 ára gömul. Hver fugl er handmótaður af listakonunni sjálfri úr jarðleir og handmálaður með leirlitum og glerung. Þessi skemmtilega fuglalína samanstendur af sex algengum fuglum hér á landi eða lunda, himbrima, súlu, krumma, snjótittlingi og síðast en ekki síst lóu, sjálfum vorboðanum og einum ástsælasta fugli landsins.

Opið er daglega kl. 11:00 - 17:00 frá 1. júní til 30. september og samkvæmt samkomulagi aðra mánuði ársins.

Upplýsingar

Heimilisfang Fjarðarbraut 42
Staður 755 Stöðvarfjörður
Netfang info@snaeros.is
Sími +354 475 8931
Vefur Sjá vefsíðu