Egilsstaðaflugvöllur

Samgöngumiðstöð Austurlands

Egilsstaðaflugvöllur þjónar öllu Austurlandi í innanlandsflugi. Flugvöllurinn er í rétt rúmlega 30 km fjarlægð frá Fjarðabyggð og er um hálfrar klukkustundar akstur frá Reyðarfirði um Norðfjarðarveg. Vegurinn nýtur fullrar vetrarþjónustu og er greiðfært svo til allan ársins hring.

Á virkum dögum eru Strætisvagnar Austurlands með tvær ferðir frá flugvellinum. Er sú fyrri að morgni en sú síðari síðdegis. Helstu bílaleigur á landinu eru með afgreiðslustöðvar í flugstöðvarbyggingunni.

Flugvöllurinn er á Egilsstaðanesi, á bakka Lagarfljóts, mitt á milli Egilsstaða og Fellabæjar. Aðstæður til flugs eru góðar, aðflug er gott og veðurfar er hagstætt. Áreiðanleiki áætlunarflugs er nær 99% á flugvellinum.

Flugstöðin var upphaflega byggð á árunum 1963 til 1968 en endurbyggð og stækkuð á árunum 1987 til 1999. Nýr komusalur var formlega tekinn í notkun í apríl 2007.

Egilsstaðaflugvöllur er einn af fjórum alþjóðlegum flugvöllum á Íslandi og er eini íslenski flugvöllurinn utan Keflavíkur sem er opinn allan sólarhringinn. Völlurinn gegnir mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur fyrir flug yfir Ísland og á Norður-Atlantshafi.