Breiðdalur

Breiðdalsvík er lítið sjávarþorp staðsett við samnefnda vík. Inn af víkinni er stór dalur er nefnist Breiðdalur, sá víðfemasti á Austfjörðum og ber því nafn með rentu. Stór og tilkomumikill fjallgarður rammar inn dalinn og náttúrufegurðin er einstök.

Vísir að þorpi varð ekki fyrr en rétt um og upp úr 1960 þó að plássið hafi orðið löggiltur verslunarstaður löngu fyrir þann tíma, þ.e. árið 1883. Fram að því voru þar einungis nokkrir bæir á stangli og verslunarhús Breiðdælinga. Á sínum tíma voru ekki allir á sama máli um hvort þorpið skyldi rísa við sjóinn eða inn í dal þar sem hið forna prestsetur Heydalir er. Mörgum þótti eðlilegt að umhverfis það skyldi þorp byggjast, en svo varð að sjávarútvegurinn hafði meira vægi þegar kom að þeirri ákvörðun. Eins og gefur að skilja var fiskveiðar og -vinnsla ein helsta atvinna íbúa Breiðdalsvíkur á uppgangsárunum á síðari hluta 20. aldar.

Í dag búa á Breiðdalsvík og í Breiðdal u.þ.b. 200 manns og byggist atvinnulífið vissulega enn að einhverju leyti á sjávarútvegi, en ásamt því hefur ferðaþjónusta á staðnum verið ört stækkandi atvinnugrein frá aldamótum. Einnig hafa íbúar lífsviðurværi sitt af hinum ýmsu þjónustustörfum og landbúnaði. Á svæðinu er flest þjónusta í boði, svo sem verslun, veitingahús, söfn, leik- og grunnskóli, bókasafn, hótel, íþróttamiðstöð, bifreiðaverskstæði, banki, pósthús, og heilsugæslustöð svo eitthvað sé nefnt.