Hólmanes fólkvangur og friðland

Útivistarparadís við Reyðarfjörð

Hólmanes, nesið milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til friðland árið 1973. Mikið fuglalíf og sékennilegar bergmyndanir. Afar ánægjulegur staður til útiveru, hvort sem er í klettum eða fjöru.

Svæðið er kjörið útivistarsvæði og ákjósanlegt til kennslu og náttúrufræðslu enda er landslag og lífríki þar fjölbreytt og jarðfræðin áhugaverð. Þá er mikið fuglalíf í Hólmanesi allt árið um kring.

Hólmatindur er afar tilkomumikið fjall og rís 985 m yfir sjávarmál milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Hólmanes sem teygir sig til suðausturs frá honum er klettótt og ber þar mest á Ytri-Hólmaborg (114 m) en norðan á nesinu er þó nokkurt sléttlendi. Utan til á nesinu  eru víða hamrar í sjó fram en innar malar- og þangfjörur.

Hólmanes og hluti af Hólmahálsi var friðlýst árið 1973 sem fólkvangur norðanmegin en friðland sunnanmegin og réði því mismunandi eignarhald. Um svæðið gilda þó samræmdar reglur. Samkvæmt náttúruverndarlögum eru fólkvangar svæði sem friðlýst eru til útivistar og almenningsnota en hafa einnig að geyma fjölbreytta og fagra náttúru. Friðland er svæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Til að ná markmiðum friðlýsingarinnar gilda eftirfarandi reglur um svæðið:

Gangandi fólki er frjáls umferð, enda virði það almennar umgengnisreglur. Ekki má skemma gróður eða trufla dýralíf. Mannvirkjagerð, jarðrask og meðferð skotvopna eru bönnuð á svæðinu.