Vöðlavík

Paradís útivistarfólks

Eyðivík sunnan Gerpis þar sem áður var fjöldi bæja. Mikil og skemmtileg sandfjara er í víkinni. Til Vöðlavíkur er jeppavegur.

Stikuð leið liggur á milli Sandvíkur og Vöðlavíkur. Þetta er um fimm klukkustundarganga, sem fer hæst um 700 m.y.s. frá Mið-Sandvík vestan við Sandvíkurvatn, í Gerpisskarð og þaðan niður í Gerpisdal og niður að Vöðlum í Vöðlavík. Það er ómaksins vert að staldra við í Gerpisdal. Þar eru hvanngrónir lækir, sérstæð steinflykki og úti í snarbröttum Gerpinum eru grónar rákir og strýtur. Þaðan sést einnig vel til Seleyjar, þar sem fyrrum var verstöð hákarla- og lúðuveiðimanna.

Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Einnig er mörgum enn í minni björgunarafrekið árið 1994, þegar tókst að bjarga sex skipverjum af brúarþaki Goðans við afar erfiðar aðstæður með aðstoð tveggja þyrlna frá bandaríska sjóhernum. Ölduhæð var um 8-9 metrar þegar verst lét. Þórarinn Hávarðsson hefur gert heimildarmynd um björgunarafrekið í Vöðlavík.

Í Vöðlavík er gistiskáli Ferðafélags Fjarðamanna þar sem hægt er að fá pantaða gistingu.