Fáskrúðsfjörður

Fáskrúðsfjörður er fallegur fjörður fyrir miðju Austfjarða. Nafn sitt dregur fjörðurinn af eyjunni Skrúði úti fyrir firðinum. Í firðinum voru áður tvö sveitarfélög, Fáskrúðsfjarðarhreppur og Búðahreppur, en Búðahreppur varð til árið 1907 þegar þéttbýlið Búðir var gert að sérstöku sveitarfélagi.

Atvinnulíf byggist að mestu á sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða, auk smærri fyrirtækja í iðnaði og verslun, en alla helstu þjónustu er að finna á Fáskrúðsfirði.

Seinni hluta 19.aldar og fram á 20.öld var Fáskrúðsfjörður ein helsta bækistöð franskra sjómanna hér á landi og óvíða á Íslandi er að finna jafn miklar minjar tengdar þeim, s.s. hús, grafreiti o.fl. Ýmis örnefni tengjast veru Frakka hér og einnig eru í firðinum örnefni sem tengjast Tyrkjaráninu 1627. Þjóðhátíðardagur Frakka 14. júlí er fánadagur á Fáskrúðsfirði.  Íbúar Fáskrúðsfjarðar eru í dag um 710.