Mjóifjörður

Mjóifjörður er 18 kílómetra langur fjörður á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Eins og nafnið gefur til kynna er fjörðurinn mjór og einstaklega veðursæll.  Fjörðurinn státar af einstakri náttúrufegurð og hann er vel falinn fjársjóður inn á milli fjallanna.

Í Brekkuþorpi er að finna ýmsa þjónustu. Þar er kirkja, ferðaþjónusta sem býður upp á gistingu og léttar veitingar, bensín afgreiðsla og þaðan er rekin útgerð.

Að Asknesi er hægt að sjá leifar af gamalli hvalstöð, sem reist var af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var hún sú stærsta í heiminum á þeim tíma. Þegar umsvif stöðvarinnar voru í hámarki unnu þar um 200 manns.

Samgöngur við Mjóafjörð geta verið erfiðar yfir vetrarmánuðina en áætlanabáturinn Björgvin gengur frá 1. október – 31. maí, á milli Brekkuþorps og Neskaupstaðar, tvisvar í viku. Nokkuð góður malarvegur liggur um Slenjudal og yfir Mjóafjarðarheiði, en vetraropnun er þar ekki regluleg. Vegur er út með firðinum, að norðanverðu, allt út að Dalatanga.

Mikið berjaland er í Mjóafirði en frægastur er hann líklega fyrir mikla kyrrð og marga fallega fossa. 

Í dag búa að jafnaði um 10 manns í Mjóafirði.