Sandvík

Heimkynni draugsins Glæsis

Eyðivík norðan við Gerpi, þar sem áður var austasta byggða ból á landinu. Við Sandvík er kenndur draugurinn Glæsir, sem fylgir gjarnan Sandvíkingum og tekur ofan höfuðið þegar hann heilsar fólki.

Stikuð leið liggur frá Stuðlum til Sandvíkur um Sandvíkurskarð. Gangan tekur um þrjár klukkustundir og fer hæst í um 500 m.y.s. Þá er hún brött en þokkalega greiðfær. Var áður aðalleið Sandvíkinga á landi og þótti erfið hestleið. Útsýni úr Sandvíkurskarði er stórkostlegt. Í Sandvík er björgunarskýli, en þar er ekki nein ferðamannaaðstaða. Þangað þurfa ferðalangar að bera með sér allt viðurværi.