Reyðarfjörður

Reyðarfjörður er stærstur Austfjarða um 30 km. langur. Hafnarskilyrði eru hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi í firðinum.  Innst í fjarðarbotninum er samnefndur bær, sem áður var nefndur Búðareyri.  Búðareyri varð löggiltur verslunarstaður árið 1890. Árið 1884 höfðu Wathne-bræður, þeir Friðrik og Ottó, stofnað þar til útgerðar og verslunar. Árið 1909 var Kaupfélag Héraðsbúa stofnað á Reyðarfirði og með tilkomu bílaaldar og bílvegar um Fagradal um 1920 varð Reyðarfjörður aðalverslunarstaður héraðsins og fylgdi því mikil gróska á staðnum.

Enda þótt sjávarútvegur og fiskvinnsla hafi verið töluverð á Reyðarfirði hér áður vógu þessar greinar ekki hlutfallslega jafn þungt í atvinnulífi staðarins eins og í flestum öðrum sjávarbyggðum austanlands. Verslun, þjónusta og samgöngur skiptu verulegu máli einkum þegar vegasamband við Fljótsdalshérað komst á og verslun héraðsmanna fluttist til Reyðarfjarðar.

Nú er útgerð og fiskvinnsla hverfandi en atvinnulífið byggist á ört vaxandi þjónustu og byggingastarfsemi vegna álvers Alcoa-Fjarðaáls og Kárahnjúkavirkjunar. Höfuðstöðvar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi eru á Reyðarfirði svo og aðalskrifstofa Fjarðabyggðar.

Árið 1930 tók Rafveita Reyðarfjarðar til starfa. Veitan er enn í notkun en hefur verið tengd við samveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins frá árinu 1958 og fær þaðan viðbótarrafmagn til að fullnægja orkuþörf staðarins. Árið 1930 voru íbúar Búðareyrar um 300, árið 1941 voru þeir 360 og árið 1990 bjuggu um 730 manns í Reyðarfjarðarhreppi.  Í dag búa tæplega 1.200 manns á Reyðarfirði.