Fjarðabyggð - þú ert á góðum stað

Í Fjarðabyggð eru stórbrotnir firðir og tignarleg fjöll aðeins brot af því besta. Menning og fjölbreytt mannlíf er ekki síður minnistætt þeim sem heimsækja þennan austasta hluta Íslands. Eitt af öðru raða lágreist sjávarþorpin sér meðfram strandlengjunni, hvert með sínum bæjarbrag og áhugaverðu sérkennum.

Landið, sagan og fólkið myndar áhugaverða heild sem laðar að sér vaxandi fjölda ferðamanna á hverju ári. Finndu uppáhalds hótelið eða gistiheimilið þitt í Fjarðabyggð eða njóttu þess að tjalda á einu af sex tjaldsvæðum sveitarfélagsins. Afþreyingarmöguleikarnir eru margir og hvarvetna er stutt í náttúruna, fjöllin og hafið. 

Hvert sem leiðin liggur um Austurland er ferð til Fjarðabyggðar hverrar mínútu virði. Kynntu þér fjölbreytta möguleika svæðisins í ferðaþjónustu og afþreyingu og njóttu Austfjarðanna í allri sinni dýrð, allan ársins hring. 

Þú ert á góðum stað

Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem austast liggur á landinu og það fjölmennasta af átta sveitarfélögum Austurlands, með rúmlega 5000 íbúa. Það varð til við samruna 14 sveitarfélaga sem fór fram í nokkrum áföngum á árunum 1988 til 2018 og er Fjarðabyggð því eitt yngsta sveitarfélag landsins. Þú ert á góðum stað eru kjörorð sveitarfélagsins. 

Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins og jafnan kenndir við firðina sem þeir standa við. Það er þó ekki einhlítt. Neskaupstaður í Norðfirði er fjölmennasta byggðin, með um 1.500 íbúa, en minnst er Brekkuþorp í Mjóafirði með tæplega 15 íbúa. Á Eskifirði eru íbúar tæplega 1.100 og tæplega 1.300 búa á Reyðarfirði. Á Fáskrúðsfirði eru íbúar um 700, um 200 á Stöðvarfirði og 200 í Breiðdal. 

Hver bæjarkjarni á sér sína sögu og hefðir og erlend tengsl leynast víðar en í „Franska bænum“ Fáskrúðsfirði. Eskifjörður er stundum nefndur „Norski bærinn“ út af umsvifum norskra útvegsmanna fyrr á tímum, auk þess sem Norðmenn ráku stóra hvalveiðistöð á Asknesi í Mjóafirði. Um Norðfjörð segja heimamenn að hann sé „þar sem lognið hlær svo dátt“. Reyðarfjörður er aftur á móti „þar sem hjartað slær“ – á Austfjörðum miðjum. Þá vísar „Steinaríkið Stöðvarfjörður“ til jarðsögulegrar sérstöðu svæðisins, og Breiðdalur "Brosir við þér" við hverja heimsókn.

Vissir þú að …

... enn má finna leifar af þýskri Heinkel 111 sprengjuvél sem fórst í síðari heimsstyrjöldinni við Sauðatindi, yst í norðanverðum Reyðarfirði.

... Austfirðirnir eru jarðsögulega einn elsti hluti landsins, allt að 13,5 milljón ára og að sama skapi ríkur af ólíkum steintegundum.

... ef heppnin er með þér sérðu kannski hvali dóla sér í Norðfirðinum.

... Norðfjarðargöng á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verða opnuð árið 2017. Nýju vegagöngin verða 7,9 km að lengd og koma í stað fjallsganganna í Oddsskarði.

... að Gerpissvæðið er frábært útivistarsvæði með stórbrotnum eyðivíkum á borð við Vöðlavík og Sandvík

... að Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð er útvistar- og gönguhátíð sem ferðafélögin á Austfjörðum koma að.

... Sandfell Fáskrúðsfirði er á heimsminjaskrá sem eitt af stærstu undrum náttúrunnar.

... Fransiskumunkar af Kapúsínureglunni reistu árið 2007 fyrsta munkaklaustrið á Íslandi frá siðaskiptum á Kollaleiru í botni Reyðarfjarðar.

Topp 20 listinn

  • Velja uppáhaldsfjörð og -fjall
  • Uppgötva öll frábæru söfnin
  • Dorga á bryggju
  • Fara í lautarferð
  • Safna forvitnilegum steinum
  • Fara í lista- og handverksgallerí
  • Upplifa Austfjarðaþokuna
  • Taka þátt í göngu- og gleðivikunni Á fætur í Fjarðabyggð
  • Sigla eða aka út í eyðivík
  • Ganga á fjöll
  • Fara á hestbak
  • Ganga á ofanflóðavarnargörðum
  • Dást að fegurð náttúrunnar
  • Prófa allar sundlaugarnar
  • Fara á bæjarhátíð
  • Heimsækja Mjóafjörð

Vetrarlistinn

  • Fara á skíði í Oddsskarði
  • Skoða hreindýr
  • Sjá norðurljósin
  • Upplifa Daga myrkurs