Eyjan Skrúður

Eyjan sem fjörðurinn dregur nafn sitt af

Skrúðurinn rís glæsilega hátt úr sjó eins og nafn hans ber merki um. Fjölskrúðugt fuglalíf er í Skrúði og var eggja- og fuglatekja mikil fyrrum. Eyjan hefur verið friðlýst frá árinu 1995. Hún er stærst þriggja eyja úti fyrir austurströnd Fáskrúðsfjarðar. Hinar tvær nefnast Æðasker og Andey.

Skrúður er hin mesta fuglaparadís og hefur lokkað til sín margan ferðalanginn og fuglaskoðarann. Þar verpa m.a. lundi, rita, súla, svartfugl, og svala. Þangað upp er erfitt að komast og ekki á færi nema staðkunnugra. 

Í eyjunni er hellir, Skrúðshellir, sem talinn er stærstur hella á Austurlandi. Þar höfðust vermenn við þegar róið var úr Skrúðnum áður fyrr. Í hellinum verpir lundinn og þykir furðu sæta að hann verpir á gólf hellisins, án þess að grafa sér holu. 

Vel þekktar eru sagnirnar af bóndanum í Skrúðnum, en hann var einn þriggja bræðra, risana í Skrúðskambi við Streitishvarf og í Papey. Þeir bræður sáu hver til annars og gátu kallað sín á milli. Tröllkarlinn Skrúðsbóndinn á að hafa búið í Skrúðshelli og var sagður hafa tekið sér að kvonfangi prestdótturina á Hólmum við Reyðarfjörð.

Í gömlum heimildum er fjörðurinn ýmist nefndur Skrúðsfjörður, Fáskrúðsfjörður eða Fráskrúðsfjörður. Almennt er talið að eyjan dragi nafn sitt af þessari grænku og lífríki og fjörðurinn síðan af heiti eyjarinnar.

Einnig eru uppi getgátur um mögulegan geliskan uppruna. Í gelisku merkir forskeytið fa- við eða innan við, og -sruth þýðir straumur eða röst, Utan við Skrúð er ein mesta straumröst við Austfirði og samkvæmt þessu væri upprunalegt heiti eyjarinnar Straumey. Fáskrúðsfjörður nefndist þá með réttu Straumfjörður.