Brekkusöngurinn er fjölskylduvæn útiskemmtun á föstudagskvöldinu
Sú góða iðja að skemmta sér konunglega er tekin alvarlega á Frönskum Dögum
Frá minningarathöfn í Franska grafreitnum sem fram fer á sunnudeginum
Hús í rauða hverfinu á Frönskum Dögum

Franskir Dagar

Fjölskylduvæn útihátíð með frönsku ívafi

Franskir dagar eru haldnir á Fáskrúðsfirði í júlí, helgina fyrir verslunarmannahelgi, og eru með stærri sumarhátíðum landsins. Þessi skemmtilega þriggja daga bæjarhátíð er sérstök fyrir tengsl Fáskrúðsfjarðar við Frakkland og er veru franskra sjómanna fyrr á öldum minnst með margvíslegum hætti. Heimamenn og gestir gera sér glaðan dag, auk þess sem fulltrúar frá franska vinabænum Gravelines taka þátt í hátíðarhöldunum. 

Áhersla er lögð á franska skemmtun í bland við íslenska og er franski boltaleikurinn pétangue og sveskjusteinakast til að mynda ómissandi þáttur í hverri hátíð.

Hefð hefur myndast fyrir því að hefja Franska daga á kenderísgöngu á fimmtudagskvöldi, en segja má að hátíðin hefjist fyrir alvöru á föstudagskvöldið með brekkusöngnum, fjölskylduvænni útiskemmtun. 

Fleiri hefðir setja svip sinn á þessa einstöku daga. Bænum er skipt upp í hverfi eftir helstu litum litrófsins og er gaman að labba um bæinn og sjá skemmtilegar litaútfærslur hjá íbúum bæjarins. Einnig fer minningarhlaup Bergs Hallgrímssonar útgerðarmanns á Fáskrúðsfirði fram á Frönskum dögum.

Á sunnudeginum er þeirra minnst sem farist hafa á sjó, með látlausri athöfn í franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði. Eru tveir blómsveigar lagðir að minnismerki grafreitsins, tileinkaðir minningu franskra og íslenskra sjómanna.  

Fáskrúðsfjörður var fram undir 1920 helsta bækistöð sjómanna frá norðurströnd Frakklands, þar á meðal frá Gravelines. Umsvif Frakka voru að sama skapi mikil og reistu þeir í kringum aldamótin 1900 mörg reisuleg hús eins og Franska spítalann og Læknishúsið. Fáskrúðsfjörður varð upp úr því fljótlega þekktur sem Franski bærinn og myndar þorpið ákjósanlega umgjörð um franskættaða sumarhátíð. Tengslin við Frakkland eru enn sterk og sækja fulltrúar vinarbæjarins Gravelines hátíðina heim á hverju sumri.