Fortitude í Fjarðabyggð

It's not just the cold that kills

Tökur vegna Fortitude 2 fara fram á Austfjörðum í tveimur lotum eða frá 1. til 28. febrúar annars vegar og 28. mars til 25. apríl hins vegar. Sem fyrr fer vetrarlandslag fjarðanna ásamt bæjarmyndum með veigamikil hlutverk, en fyrri þáttaröðin fékk einmitt mikið lof gagnrýnenda fyrir tilkomumiklar sviðsmyndir. Reyðarfjörður verður í forgrunni en tökur fara víðar fram s.s. á Eskifirði, í Fagradal, á Seyðisfirði og fyrir ofan byggðina á Reyðarfirði.

Þættirnir verða áfram stjörnum prýddir, enda þótt mannfall hafi orðið talsvert í fyrri þáttaröðinni. Sofie Gråbøl og Björn Hlynur Haraldsson verða á sínum stað sem hjónin Hildur og Eric Odegard, en af nýjum leikurum má meðal annarra nefna stjórstjörnuna Dennis Quaid og Michelle Fairley, sem er hvað þekktust fyrir leik sinn sem drottningin á Vetrarfelli í Game of Thrones.

Kvikmyndafyrirtækið Pegasus sér um þann hluta framleiðslunnar sem fer fram á Íslandi. Starfsliðið er íbúum í Fjarðabyggð að góðu kunnugt, en Pegasus sá einnig um tökur í fyrri þáttaröðinni. Um 140 manna starfs- og tökulið er staðsett í Fjarðabyggð vegna Fortitude 2. 

Gerð þáttanna hvílir á góðu samstarfi íbúa og starfsliðs. Þá daga sem tökur fara fram á Reyðarfirði og Eskifirði, gæti þurft að loka tímabundið fyrir umferð um afmörkuð svæði. Þá eru gangandi vegfarendur beðnir um að láta sem ekkert sé og halda ótrauðir sínu striki, gangi þeir óvart inn í myndatöku á stað. Leitað verður eftir samþykki viðkomandi að tökum loknum. 

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem kvikmyndatökur kunna að valda og íbúum þakkað fyrir auðsýndan skilning og þolinmæði.

Fyrri þáttaröðin var tekin upp árið 2013 og er hún sú dýrasta sem framleidd hefur verið af bresku sjónvarpsstöðvunum. Framleiðslukostnaður nam alls 1,2 milljörðum króna. Meðaláhorf nam 1,7 milljón áhorfenda á hvern þátt.

Nánari upplýsingar um tökur í Fjarðabyggð má fá í síma 775-1119 og 414 2000.