Tryggi Ólafsson við eitt verka sinna
Safnið er á jarðhæð Safnahússins í Neskaupstað
Ný sýning á verkum Tryggva Ólafssonar er sett upp á hverju ári
Málverkasafnið er stærsti eigandi landsins að verkum eftir Tryggva Ólafsson

Málverkasafn Tryggva Ólafssonar

Liggur alltaf eitthvað á hjarta

Tryggvi Ólafsson er í hópi þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar en hann skipaði sér snemma á ferlinum í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl.

Tryggvi var fæddur árið 1940 í Neskaupstað. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn, við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Lengst af starfsævinnar var Tryggvi búsettur í Kaupmannahöfn. Tryggvi lést þann 3. janúar 2019.

Málverkasafn Tryggva Ólafssonar opnaði formlega í september 2001 og færði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, þá safninu að gjöf verkið Kronos fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Veg og vanda af stofnun safnsins átti Magni Kristjánsson, skipstjóri og æskuvinur Tryggva og var safnið fyrst til húsa í gamla Kaupfélagshúsi bæjarins, þar sem nú er Hótel Hildibrand.

Árið 2007 fluttist safnið í núverandi húsnæði í Safnahúsinu á Neskaupstað.

“Tryggva liggur alltaf eitthvað á hjarta. Hann veit manna bezt að ekkert verður án átaks, hið léttkeypta hverfur í ryksugu dægranna eða í sand uppblástursins. Það er hin sívirka leit sem færir eina fenginn sem endist.”

Thor Vilhjálmsson, rithöfundur (sýningarskrá, 2001)

Málverkasafnið er eitt af þremur söfnum Safnahússins í Neskaupstað og er staðsett á jarðhæð hússins.

Safnið er opið alla daga frá 13:00 - 17:00 (júní-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.

Sjá opnunartíma safna í Fjarðabyggð

Upplýsingar

Heimilisfang Egilsbraut 2
Staður 740 Neskaupstað
Netfang sofn@fjardabyggd.is
Sími +354 470 9000
Vefur Sjá vefsíðu