Gönguleiðir

Láttu fjöllin næra sálina

Fjarðabyggð er draumastaður fyrir útivist með gönguleiðir við allra hæfi. Þá hefur sveitarfélagið að geyma eitt mest spennandi göngusvæði Íslands sem er Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar en svæðið er jafnframt austasti hluti landsins.

Fyrir þá sem vilja áskorun er hægt að vinna sér inn titilinn Fjallagarpur Fjarðabyggðar með því að ganga á fjöllin fimm í Fjarðabyggð sem ferðafélag svæðisins hefur valið. Um er að ræða Kistufell 1239 m, Goðaborg 1132 m, Svartafjall 1021 m, Hólmatindur 985 m og Hádegisfjall 809 m. Þátttakendur verða sér út um sérstök stimpilkort og efst á hverju fjalli er svo stimplað.

Ferðafélögin í fjarðabyggð hafa verið ötult við á síðustu árum að merkja gönguleiðir á Austfjörðum. Einnig hefur Ferðafélag Fjarðamanna gefið út Gönguleiðir á Fjarðaslóðum og var þriðja útgáfa kortsins gefin út árið 2011.

Fjölmargar leiðir hafa verið stikaðar m.a. frá Norðfirði og yfir í Mjóafjörð um Miðstrandarskarð og frá Vöðlavík og yfir í Sandvík um Gerpisskarð.

Leiðin frá Mjóafirði yfir í Norðfjörð er hluti af samfelldri gönguleið sem stikuð er frá Borgarfirði eystri yfir í Skriðdal og gönguleiðin frá Vöðlavík yfir í Sandvík er hluti af gönguleiðakerfi á Gerpissvæðinu sem nú hefur nánast allt verið stikað.

Göngu- og gleðivikan Á fætur í Fjarðabyggð er haldin síðustu heilu vikuna í júní og þar er í boði fjölbreyttar göngur við allra hæfi, kvöldvökur, náttúruskóli fyrir börnin og margt fleira.

Ferðafélögin gefa út dagskrá fyrir hvert ár þar sem má sjá upplýsingar um skipulagðar gönguferðir.