Ferjusiglingar

Farþega- og bílaferjan Norræna kemur á hverjum fimmtudegi til hafnar á Seyðisfirði á leið sinni frá Danmörku og Færeyjum. Siglt er frá Seyðisfirði til Færeyja, Danmerkur og Skotlands tvisvar í viku. Ferjan tekur alls 1.482 farþega og 800 bíla. Siglt er til Hirtshals í Danmörku en þaðan er 5 til 15 klst akstur til margra af helstu borgum Evrópu s.s. Berlínar, Amsterdam, Prag og Parísarborgar. Tæpir 60 km eru á milli Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar í Fjarðabyggð.

Frá Mjóafirði til Reyðarfjarðar er um 55 km leið, sem liggur um Fagradal (92) og Mjóafjarðarveg (953). Frá Egilsstöðum er leiðin til Mjóafjarðar rúmir 40 km. Mjóafjarðarvegur er malarvegur og verulega brattur og seinfarinn á köflum. Vegurinn er ekki snjóruddur á vetrum og er jafnan lokaður frá október og fram í maí.

Á milli Brekkuþorps í Mjóafirði og Neskaupstaðar eru reglubundnar ferjusiglingar frá 1. október til 31. maí með flóabátnum Anný (853 3004, 616 2630). Siglt er tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Brottfarartími er kl. 10:00 frá Brekkuþorpi og kl. 12:30 frá Neskaupstað. Báturinn tekur ekki bíla.