Strætó

Strætisvagnar Austurlands - SVAust

Strætisvagnar Austurlands, SVAust, er fyrsta heildstæða almenningssamgöngukerfið sem þjónar landshlutanum í heild sinni.

Þjónustan tekur mið af gjaldsvæðum sem spannar hvert um sig 15 km. Almennt fargjald miðast við fjölda gjaldssvæða og er greiddur einn miði fyrir hvert gjaldsvæði.

Ferðir til Egilsstaðarflugvallar og frá, eru virka daga að morgni og síðdegis. Greiða má fyrir stakar ferðir um borð í vagninum.

Strætisvagnamiðar eru seldir í íþróttamiðstöðvum Fjarðabyggðar og á bæjarskrifstofu. Fáanleg eru 10 miða kort og tímabilskort sem gilda til eins, tveggja, þriggja, sex eða tólf mánaða í senn. Lífeyrisþegar og öryrkjar greiða aðeins fyrir eitt gjaldsvæði óháð vegalengd og einnig framhaldsskólanemar gegn framvísun framhaldsskólakorts SVAust.

Á vef SV Aust má nálgast allar upplýsingar um áætlunarferðir, miðasölu, leiðarkerfi og biðstöðvar í Fjarðabyggð. Einnig má nálgast leiðarkerfi og áætlunarferðir strætisvagna á pdf hér til hliðar.

Leiðarkerfi Sv Aust nær ekki til Mjóafjarðar, nyrsta fjarðar Fjarðabyggðar.

Frá Mjóafirði til Reyðarfjarðar er um 55 km leið, sem liggur um Fagradal (92) og Mjóafjarðarveg (953). Frá Egilsstöðum er leiðin til Mjóafjarðar rúmir 40 km. Mjóafjarðarvegur er malarvegur og verulega brattur og seinfarinn á köflum. Vegurinn er ekki snjóruddur á vetrum og er jafnan lokaður frá október og fram í maí. 

Á milli Brekkuþorps í Mjóafirði og Neskaupstaðar eru reglubundnar ferjusiglingar frá 1.október - 31.maí með flóabátnum Anný (853 3004, 616 2630). Siglt er tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Brottfarartími er kl. 10:00 frá Brekkuþorpi og kl. 12:30 frá Neskaupstað eða síðar eftir samkomulagi. Báturinn tekur ekki bíla.