Dansýningin SPOR

19.09.2020 - 20.09.2020

Klukkan 11:00

16.09.2020

Dansýningin SPOR verður í Valhöll á Eskifirði 19.- 20. september. SPOR er gagnvirk dansýning fyrir börn á aldrinum 4 til 6 ára. Sýningin er öllum börnum gjaldfrjáls en hún fjallar um orkuna í náttúrunni og í okkur sjálfum í gegnum dansinn, innsetningar og tónlist. SPOR er könnunarleiðangur þar sem leitað er að galdrinum sem felst í orkunni, um kraftinum sem býr í öllu. Áhorfendum er boðið inn í heim þar sem orkan er allt um kring, sjáanleg, heyranleg og snertanleg.

Tvær sýningar laugardaginn 19. september. Sú fyrri kl. 11:00 en sú síðari kl. 14:00.
Tvær sýningar sunnudaginn 20. september. Sú fyrri kl. 11:00 en sú síðari kl. 14:00.
Miðaverð: Sýningin er öllum opin þeim að kostnaðarlausu en panta þarf miða á SPOR þar sem gæta þarf að fjölda en aðeins 30 börn geta komið á hverja sýningu. Miðapantanir í síma: 8690318 / 8944321 frá 13.00 til 18.00 virka daga
Orkan í hafinu, á jörðinni, í geimnum og orkan í okkur sjálfum er það sem SPOR snertir á og kannar með börnunum sem fylgja dansandi óbeisluðum orkugjöfum auk þess að kanna undarlegt umhverfið á eigin vegum. Hvaða orka er það sem kviknar í myrkrinu? Hvernig verður orkan til? Erum við orkusugur eða gefum við jafn mikið og við þiggjum? Hvernig höfum við áhrif á orkuna í kringum okkur?
Þar sem sýningin miðast við 30 „litla“ gesti biðjum við foreldra að bíða fyrir utan eða til hliðar í rýminu á meðan börnin njóta sýningarnar. Danshöfundurinn ásamt aðstoðarmanni munu fylgja börnunum í rými, og sjá um þau á meðan á sýningunni stendur. Foreldrar eru beðin um að bíða á staðnum á meðan á sýningunni stendur. Kaffi verður í boði. Hægt verður að hleypa inn einstaka foreldri með í ferðina um salinn ef þörf er á að fylgja börnum á sýningunni en við biðjum ykkur um að sýna skilning og gera að gera ekki ráð fyrir að koma með börnum um sýningarrýmið.
Sýningartími: 40 mínútur.
Aldurshópur: 4 til 6 ára.
Við minnum fólk á þær reglur sem eru gildi vegna COVID-19 en frekari upplýsingar er að finna hér https://bit.ly/2AUdvha
SPOR er hluti af BRASinu í ár á Austurlandi en sýningin er samstarfsverkefni listafólks frá Íslandi, Noregi, Finnlandi, Grænlandi og Færeyjum. Verkið var fyrst sýnt í Gerðubergi í apríl 2019.
BRAS - Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi er nú haldin í þriðja sinn að hausti 2020 um allt Austurland. Fylgist með á www.bras.is en þar má sjá hvað er á döfinni.
Einkunnarorð hátíðarinnar eru sem fyrr Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hennar að börn þori að vera þau sjálf og framkvæmi á eigin forsendum. Hátíðin er haldin frá miðjum september fram í október þar sem fram fara litlir sem stórir listviðburðir auk námskeiða og fræðslu á sviði lista og menningar. Yfirskriftin í ár er „Réttur til áhrifa“ og byggir á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.