Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á BS-nám í tölvunarfræði á Austurlandi

11.05.2023

Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á BS-nám í tölvunarfræði á Austurlandi frá og með næsta hausti. 

Um er að ræða sveigjanlegt nám sem hentar vel fyrir fjarnema og fólk sem ætlar að stunda hlutastarf með náminu. Fyrirlestrarnir eru teknir upp og settir á kennsluvef og þannig getur þú horft á fyrirlestrana þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Nemendur mæta svo í verkefnatíma á Reyðarfjörð þar sem verkefnastjóri aðstoðar þá.

Tölvunarfræði er spennandi nám sem skiptir samfélagið máli. Starfsmöguleikar tölvunarfræðinga eru margir hér heima og erlendis og störfin eru almennt vel launuð. Við hvetjum alla sem eru í námshugleiðingum á Austurlandi að skoða tölvunarfræðinámið á Reyðarfirði. Fyrir utan gagnsemi og mikilvægi námsins er einfaldlega ódýrara og fyrirhafnarminna að læra í heimabyggð!

Umsóknarfrestur er til 5. júní.

Frekari upplýsingar má finna hér