Ljóð um ljóð og geit á beit - tónleikar með sönglögum við ljóð Þórarins Eldjárns - Breiðdalsvík

20.06.2021

Klukkan 16:00

21.05.2021

Sunnudaginn 20. júní kl. 16:00 flytja þær Erla Dóra Vogler mezzosópran, Lilja Guðmundsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari sönglög við ljóð Þórarins Eldjárns í Frystihúsinu á Breiðdalsvík. Þórarinn Eldjárn ljóðskáld tekur sjálfur þátt í tónleikunum og segir frá ljóðum sínum.

Almennt miðaverð 3000 kr. 

Eldriborgarar og börn 2000 kr.

Á tónleikunum verða flutt sönglög við ljóð Þórarins Eldjárns. Flytjendur á tónleikunum eru Erla Dóra Vogler mezzosópran, Lilja Guðmundsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari, auk þess sem Þórarinn Eldjárn ljóðskáld tekur sjálfur þátt í tónleikunum og segir frá ljóðum sínum.

Þórarin Eldjárn þekkir hver Íslendingur, en hann hélt nýlega upp á sjötugsafmæli sitt og hefur á sinni frjóu starfsævi, sem er hvergi nærri á enda runnin, gefið þjóðinni aragrúa af ljóðum og ljóðasöfnum, jafnt börnum sem fullorðnum.

Tónskáld þjóðarinnar hafa verið dugleg við að gera sér mat úr ljóðum Þórarins og af þeim fjölda tónskálda sem samið hafa lög við ljóð hans má nefna Tryggva M. Baldvinsson, Hauk Tómasson, Egil Ólafsson, Jónas Tómasson, John Speight, Kjartan Ólafsson, Atla Heimi Sveinsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Michael Jón Clarke, Jóhann G. Jóhannsson og Elínu Gunnlaugsdóttur sem samdi söngleikinn um Björt í Sumarhúsum. Flytjendur hafa sett saman efnisskrá sem inniheldur nokkur af þekktustu lögunum sem samin hafa verið við ljóð Þórarins í bland við skemmtilegar tónsmíðar sem heyrast sjaldan.

Ljóð Þórarins Eldjárns eru bráðhnyttin og ná til allra aldurshópa, en Þórarinn notar íslenska tungumálið á frumlegan og skemmtilegan hátt. Tónskáldunum hefur einnig tekist einstaklega vel upp með að semja lög í léttum stíl, jafnvel út í blús og jazz, sem henta og endurspegla glettni ljóðanna sérlega vel. Þetta verða vandaðir og mjög aðgengilegir tónleikar þar sem efnisskráin er þess eðlis að allir aldurshópar geta haft gaman af.