Nýtnivikan 2022 – Sóun er ekki lengur í tísku!

17.11.2022

Íbúar Austurlands eru hvattir til að taka þátt í Evrópsku nýtnivikunni, en hún verður haldin frá 19. – 27. nóvember. Markmið vikunnar er að fá fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.

Þema ársins er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu Sóun er ekki lengur í tísku!

Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda svo það skiptir miklu að draga úr sóun textíls.

Í tilefni nýtnivikunnar eru sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir, skólar og almenningur hvött til þess að fræðast um umhverfisáhrif textíls og leggja sitt af mörkum til að skapa hringrásarhagkerfi textíls í samfélaginu. Til að mynda er hægt að setja upp fataskiptimarkað á vinnustöðum og á heimasíðu Saman gegn sóun má finna kynningarefni sem þið getið nýtt ykkur. Svo er um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn, halda viðgerðarkaffi, fyrirlestra eða hvaðeina sem styður við minni sóun.

Saman gegn sóun - heimasíða

Deilum góðum hugmyndum!

Forsvarsmenn verkefnisins hvetja einnig öll, sem standa munu fyrir viðburðum eða öðru tengdu í nýtnivikunni í ár, að deila því með þeim á Facebooksíðu nýtnivikunnar með því að senda þeim skilaboð. Viðburðunum og/eða öðru efni verður svo deilt áfram. Einnig er hægt að hafa samband við þau í gegnum netfangið samangegnsoun@samangegsoun.is.

Við á Austurlandi getum líka lagt okkar lóð á vogarskálarnar með því að deila góðum hugmyndum, segja frá því sem við teljum að við gerum vel og þannig getum við öll hjálpast að við að minnka sóun.  Við hvetjum ykkur til að deila slíkum sögum og/eða myndum á samfélagsmiðlum.

Notum myllumerkin #nytnivikan #samangegnsoun #ewwr2022