Breiðdalssetur

Elsta hús Breiðdalsvíkur

Gamla kaupfélagið, elsta hús Breiðdalsvíkur, hýsir Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Rannsóknasetrið heldur úti fræðandi og skemmtilegum sýningum fyrir almenning í samstarfi við Breiðdalssetur, menningar- og fræðasetur Breiðdælinga.

Fastasýningar Breiðdalsseturs segja frá tveimur merkum vísindamönnum með tengsl við Breiðdal sem unnu brautryðjendastarf á Austurlandi. George Walker var einn fremsti eldfjallafræðingur 20. aldarinnar. Hann vann mikilvægar rannsóknir á jarðsögu Íslands á Austurlandi, kortlagði meðal annars hina fornu Breiðdalseldstöð og renndi stoðum undir flekakenninguna. Breiðdælingurinn Stefán Einarsson var prófessor í málvísindum við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum. Hann var afkastamikill og fjölhæfur fræðimaður, einkum á sviði hljóðfræði og bókmenntafræði, og sennilega hefur enginn fyrr og síðar kynnt Ísland og íslenskar bókmenntir jafn ítarlega fyrir enskumælandi heimi.

Auk sýninganna um Walker og Stefán er sett upp ný tímabundin sýning á setrinu á 1-2 ára fresti. Núverandi sýning var opnuð sumarið 2022 í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og fjallar um notkun borkjarna til að varpa ljósi á leyndardóma íslenskrar jarðfræði, meðal annars eldgosin í Surtsey og hraunstaflann mikla sem myndar Austurland.

Á sýningunni er sérstakt barnahorn með skemmtilegum viðfangsefnum fyrir yngri kynslóðina. 

Opnunartími á sumrin (júní til ágúst):

Sunnudaga - fimmtudaga kl. 12:00-16:00

Lokað er á föstu- og laugardögum. Aðgangur ókeypis.

Opnunartími á veturna (september til maí):

Engir fastir opnunartímar eru á veturna. Starfsfólk er yfirleitt á staðnum milli 10:00- 16:00 á virkum dögum og gestum er velkomið að líta við. Einnig er hægt að bóka heimsóknir fyrirfram á netfangið mariahg@hi.is. Verið velkomin!

Upplýsingar

Heimilisfang Gamla kaupfelagid
Staður 760 Breiðdalsvík
Netfang mariahg@hi.is
Sími +354 525 5341
Vefur Sjá vefsíðu