Norðfjörður

Við Norðfjörð er nyrsti og fjölmennasti byggðarkjarninn í Fjarðabyggð. Árið 1895 var löggiltur verslunarstaður á Nesi í Norðfirði en þá var hafin þar þorpsmyndun. Ástæður þéttbýlisþróunarinnar eru mjög ljósar, því um 1870 hófst saltfiskverkun í miklum mæli og við það elfdist útgerð, en Norðfjörður liggur mjög vel við gjöfulum fiskimiðum. 

Árið 1905 urðu merk tímamót þegar Norðfirðingar eignuðust sína fyrstu vélbáta og voru á þeim tíma gerðir út um 60 bátar til fiskveiða en íbúar Nesþorps voru þá orðnir um 355 talsins. Hafði því talsverð fjölgun íbúa átt sér stað frá því árið 1895 er íbúar voru um 180. Árið 1913 var þorpið aðskilið frá sveitinni og nefnt Neshreppur. Þá bjuggu þar 636 íbúar. 

1. janúar 1929 fékk Neshreppur kaupstaðarréttindi og nefndist Neskaupstaður. Íbúafjöldi var þá 1.103.  Íbúar í Norðfirði um 1990 voru 1.754. Næstu árin fækkar íbúum nokkuð. Haustið 1993 var samþykkt að sameina Norðfjarðarhrepp og Neskaupstað undir nafni Neskaupstaðar og tók sameiningin gildi 11. júní 1994 og voru þá mörk sveitarfélagsins orðin þau sömu og fyrir 1913.  Norðfjörður er í dag fjölmennasti byggðarkjarninn í Fjarðabyggð en íbúar eru um 1.530. 
 
Sjávarútvegur, fiskvinnsla og tengd þjónusta er aðalatvinnuvegur íbúa í Neskaupstað og þar er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarinnslan h/f,  sem rekur eitt stærsta og fullkomnasta fiskiðjuver í Evrópu, þar sem uppsjávarfiskur er unnin til manneldis. Fjórðungssjúkrahúsið er einnig fjölmennur vinnustaður. Þá er nokkur landbúnaður í Norðfjarðarsveit.