„Vér heilsum glaðar framtíðinni“

19.06.2015

14.06.2015

Í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna, opnar sýningin „Vér heilsum glaðar framtíðinni“ kl. 13:00 í Safnahúsinu Neskaupstað og kl. 15:00 í samkomuhúsinu á Stöðvarfirði.

Sýningin rekur í máli og myndum réttindabaráttuna, en yfirskriftin er tilvitnun í sigurræðu sem baráttukonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir flutti á Austurvelli. Hinn 19. júní hefur frá því að konur fengu kosningarétt verið baráttudagur kvenna á Íslandi, en á þeim mánaðardegi árið 1915 voru ný kosningalög samþykkt á alþingi.

Árið 1915 fengu allar konur og karlmenn 25 ára og eldri kosningarétt, þó með þeim takmörkunum að miða skyldi við 40 ára aldur kvenna og vinnumanna, sem ekki höfðu haft kosningarétt áður. Aldursákvæðið skyldi síðan lækka um eitt ár árlega þar til það næði 25 árum.

Reyndin varð hins vegar sú að 1920 fengu allir jafnan kosningarétt, bæði konur og karlar og var miðað við 25 ára aldur. Smám saman hefur kosningaaldur síðan verið lækkaður, nú síðast í 18 ár árið 1984.

Í tilefni afmælisársins hefur einnig verið opnaður vefur um sögu kosningaréttar á konurogstjornmal.is

Á sýningunni og á vefsíðunni er rakin saga kosningaréttar á Íslandi og sérstaklega kosningaréttar kvenna, auk þess sem áföngum í kvennabaráttu og jafnréttismálum eru gerð skil. Sýnt er margvíslegt efni úr safninu er varðar kosningaréttinn, en einnig efni frá Alþingi, Þjóðskjalasafni Íslands, Ríkisútvarpinu og fleiri aðilum.

Verkefnið er styrkt af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og er í samstarfi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns við Þjóðskjalasafn Íslands, Alþingi, RÚV og Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.

Sýningin verður í Safnahúsinu út sumarið en lýkur í samkomuhúsinu á Stöðvarfirði fyrstu vikuna í júlí.

Fjarðabyggð óskar íbúum og landsmönnum öllum til hamingju á með aldarafmæli kosningarréttar kvenna.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940), var einn af stofnendum Kvenréttindafélags Íslands og formaður til margra ára. Félagið var stofnað árið 1907 með kosningaréttinn sem eitt af helstu baráttumálum.